Flettingar í dag: 107
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 55
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 305889
Samtals gestir: 30968
Tölur uppfærðar: 1.11.2024 01:59:03

24.12.2006 16:19

Gleðileg jól



Kæru lesendur.

Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfu á komandi ári.
  Sigurjón Kristín og Arnar.

18.12.2006 23:02

Botnaðu!

Í gærkvöldi sá ég ýkta sjón
sæskrýmsli í bala.

17.12.2006 00:13

Svona var það 76(72)....



Fyrst við erum farin að fjalla um sokkabands árin,er ekki úr vegi að skella upp mynd sem tekin var á sömu stundu og hin myndin sem þið voruð svo hrifin af og tekin á litlu kodak vélina hennar Sólrúnar.
Það sem Kári er með í könnunni er berjasaft sem við stálum oft frá mömmu til að blanda með eitthvað sterkara og reyndist hinn ágætasti drykkur. Á þessum árum var efri hæðin í Sunnuhvoli einn geimur sem átti eftir að innrétta en herbergin okkar Sólrúnar voru tilbúin og saftin góða var geymd þarna uppi í svalanum og var því innan seilingar þegar á þurfti að halda.


14.12.2006 22:43

Úr Reisubók Sigurjóns og Arnars



Svona var útsýnið úr Rauðagerðinu þegar við feðgar lögðum af stað kl 11 í morgun í átt til Stöðvarfjarðar.Margur áhugamaðurinn um fljúgandi furðuhluti gæti átt það til að fagna svona sönnunargagni um tilvist hinna litlu grænu sem eru sífellt að njósna um okkur sér til ánægju og yndisauka.
Ég tók reyndar ekki eftir þessum skýhnoðra þegar ég smellti af og stakk mér inn í bílinn. Veðrið á leiðinni var nokkuð gott sem og færðin en talsverð hálka var á köflum.

03.12.2006 02:19

Í friði og ró

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á sjónum saknaði ég þess alltaf að geta ekki verið meira heima þegar jólin voru í nánd.Það er svo margt að gerast sem sjómennirnir missa hreinlega af nema þeir séu svo heppnir að hafa nælt sér í smá kvefpest svo þeir hafi einhverja gilda afsökun til að kúra heima í faðmi fjölskyldunnar.
Dorma uppi í rúmi eða sófa og hlaða inn á sig jólunum,vera mættur fram í eldhús í hvert skipti sem kökurnar renna sjóðheitar út úr ofninum og raða í sig þangað til átvaglið er rekið með harðri hendi fram aftur, sagt að
gera eitthvað gagn við jólaundirbúninginn fyrst heilsan sé orðin svona góð.
Oft hefur skipið verið að koma inn á Þorláksmessu og þá er margt eftir sem húsmóðirin hefur ekki komist yfir að gera einsog að koma upp útiseríum,handera skötuna ofl. Síðan koma jólin í friði og ró og enginn á sjó nema Hafliði og co en það er önnur saga sem verður sögð síðar.

27.11.2006 23:37

Smásaga

Eldhúsið er í rúst, ekkert eftir nema glugginn einn sem stendur jafn þögull sem fyrr og heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist sínu gamla og göfuga hlutverki.Varpar fölri birtu yfir geðsjúka menn sem berjast um trylltir
og óðir,tæta niður bekki og borð og vaskurinn fær fría útsýnisferð út um gluggann með kranann sinn gamla og góða félaga í eftirdragi.Þegar mesta æðið rennur af sjúklinunum setjast þeir niður með kaffibollann sinn og ræða um gang himintungla og Framsókn.

24.11.2006 22:54

Kvöldtónar

Dagurinn í dag er að niðurlotum kominn,enda búinn að vera að í allan dag.Á morgun byrjar hann aftur með sömu látunum.Hver dagur er nýtt líf.

16.11.2006 22:30

Veðurfréttir

Þetta er nú meira dómadags veðrið sem er nú búið að herja á okkur landsmenn dag eftir dag og spáin er sú sama hvernig sem ég ligg á bæn og bið um að hann fari nú að rigna.Það er ekki lengur eins gaman þegar norðanáttin gnauðar við gluggann og var hér á árum áður.Þá sló út öllu rafmagni,hlutur sem maður kunni vel að meta því datt út sjónvarpið og stóð eins og illa gerður hlutur úti í horni og heimilisbragurinn gjörbreyttist.Bækur voru dregnar upp, sumir reyndu að hlusta á snarkið í gömlu gufunni og gátu verið furðu þolinmóðir við þá iðju.
Skólanum var aflýst, þó ekki væri nema í einn dag var það mikið fagnaðarefni fyrir ungar sálir sem öskruð af gleði og stukku út í snjóinn með tilheyrandi látum eins og þegar kúnum er hleypt út á vorin í fyrsta sinn.
Svona er lífið með sína kosti og galla....

13.11.2006 21:40

Hvar er botninn?

Nú er tími að lesa og lúra
loka augum góða stund


Þú mátt botna.


09.11.2006 21:07

Auðlindin

Þegar ég mætti til vinnu í morgun á Norðfirði lá Beitir NK við bryggju með 1100 tonn og beið löndunar.Síldin er smá og fer nánast öll í bræðslu.


Við löndunarbryggjuna var Guðmundur Ólafur að landa aðeins rýmri skammti.

08.11.2006 21:37

kaffi

Án þín væri lífið eins og lokuð bók,harðlæst.
Án þín kæmist ég ekki á fætur á morgnana né fengi mig til að líta framan í daginn.
Án þín mundi ég ekki vaxa og dafna.
Án þín gæti ég ekki sóað tímanum til einskis.
Stundum hata ég þig og fæ nóg af þér og vil helst ekki sjá þig meir.
En alltaf leita ég til þín aftur og tek þig í sátt.Því þrátt fyrir allt,elska ég þig af öllu hjarta
og þrái, hvern einasta dag..........
 

02.11.2006 23:50

Miðnæturraus

Þegar ég leit út um gluggann brá mér í brún,sá út um öll tún og langt út í hafsbrún þar sem þar sem sólin hún feimin og rjóð eftir næturgöltið gægðist yfir hafflötinn.Teygði mig eftir myndavélinni en hún var steindauð.
Setti hlunkinn í hleðslu til að  til að hafa hana til fyrir næsta morgun sem verður örugglega með gráan himin og enga sól.Ég tek þá bara mynd af rigningunni,á enga svoleiðis mynd að hafa upp á vegg til að prýða stofuna.
Dagurinn fór síðan í uppsetningu á hljóðkerfi fyrir grunnskólann en þar eru nú fáir iðnaðarmenn eftir enda
flestir útskrifaðir nema einn og einn trésmiður sem sést ráfa um  á göngunum og er kannski bara að leita að útgöngudyrunum eða hefur sig ekki í að slíta tengslin við þennan vinnustað.Með þessum orðum kveð ég að sinni.

29.10.2006 11:35

Sunnudagur

Þá er kominn sunnudagur og engin rigning til að horfa á  renna niður gluggarúðuna á meðan ég drekk morgunkaffið sem rennur þó glatt niður og kætir líkama og sál.Á meðan hjalar Blöndal við Kristján eins og lækur
á miðjum sumardegi.

28.10.2006 00:36

Rigningin

Það vildi ég að hann færi nú að rigna hressilega.

25.10.2006 22:53

Kvöld við sjóinn



Datt í hug að skella þessari mynd á síðuna og sýnir hvað trilluflotinn og tímarnir hafa breyst í áranna rás.
clockhere