Flettingar í dag: 394
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 67
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 133838
Samtals gestir: 7532
Tölur uppfærðar: 1.4.2023 12:15:59

16.07.2011 23:02

Bæjarhátíðin: Maður er manns gaman.Þar sem rabbarbarinn er í hávegum hafður. Fleiri myndir munu birtast í albúmi á næstu dögum.

05.06.2011 17:47

Sjómannadagurinn.Þegar ég horfi á þessa mynd,hverf ég mörg ár aftur í tímann og minnist hátíðarhaldanna sem fylgdu Þessum sjómannadegi. Allir bæjarbúar drifu sig niður á bryggju og byrjuðu daginn á að demba sér í skemmtisiglingu með fiskiskipum staðarins sem voru,Kambaröst og Haddur en Heimir var í smíðum úti í Noregi. Ég var smá gutti þegar þessi mynd var tekin og stend uppi í bassaskýlinu ásamt félögum mínum og þótti okkur þetta mikil upplifun.Eftir að lagst var að bryggju hófust hátíðarhöldin. Kalli Kristjáns skipsstjóri skaut upp neyðarblysi um borð í Kambaröstinni og í framhaldi af því var línu skotið yfir á litlu bryggju og Vífill Karlsson dreginn yfir á bryggjuna í björgunarstól. Svona leið dagurinn og svona voru þeir margir eins og allir muna. Í framhaldi af þessum vangaveltum óska ég öllum sjómönnum til hamingju með daginn...........

20.05.2011 22:00

Föstudagurinn 20.Það er svo sem lítið að segja um þessa mynd sem talar sínu máli sjálf.....

13.05.2011 22:55

Föstudagurinn 13.

Ég ætti nú að fara að skrifa eitthvað hér fyrst ég er að halda úti þessari bloggsíðu mér og öllum til sárra leiðinda en hvað um það. Ég fór að hugsa um þessa dagsetningu sem margir trúa og treysta á að bara á þessum degi fari allt í handaskolum og tala jafnvel um að þurrka þennan ólukkudag út af almanakinu sem er ónýtur hvort sem er.Sumir fara varla út úr húsi af ótta við að detta og brjóta sig á einhvern hátt og til sjós er hreinlega bannað að elda svið á þessum degi og er það regla sem flestallir kokkar virða.Ég leysti stundum af sem kokkur og þegar ég var í mínum fyrsta túr og var að hafa til matinn,kom skipstjórinn að máli við mig og sagði mér að hann ætlaði ekki að skipta sér af minni matseld á nokkurn hátt að öðru leiti en því að hann færi fram á það að ég sleppti því að hafa svið á þessum leiðinda degi sem ég samþykkti með glöðu geði enda leiðinlegt að sjóða slíkan varning í veltingi og öllu sem því fylgir.
Við erum stödd í sama skipi nokkrum túrum seinna og erum á veiðum í fínu veðri og góður gangur í fiskeríinu þar til einn daginn í hádeginu að einn félagi okkar á leið upp í brú og fer að spjalla við kafteininn sem ber sig illa og segir að þetta sé tapaður dagur,föstudagurinn 13. og svo hafði hann séð að kokkurinn(aðalkokkurinn) var búinn að raða sviðakjömmum frá því deginum áður á bakka til að auka fjölbreytileika máltíðarinnar. Ekki vorum við fyrr búnir að borða en kallað er: hífa og trollið kom í einum göndli inn á dekk og fór góður hluti af vaktinni í að snúa ofan af öllu saman og síðan demt í sjóinn aftur með góðri samvisku. Eftir hálftíma endurtók sig sama sagan  og síðan aftur og aftur. Við héldum nú að þetta færi nú að taka enda því þetta væri nú ekki eðlilegt,ágætur botn og veðrið lék við okkur en þá er kallað aftur og við út á dekk en nú máttum við bíða í nokkurn tíma því nú var allt fast í botni og var verið að jagast á þessu stutta stund þar til togvírarnir hreinlega láku í sundur og þá tók við það skemmtilega verk að slæða draslið upp sem kom náttúrulega í einum hnút upp á dekk með hlerum og og vírum í kaupæti. Síðan var bara slegið í klárinn sem var heimfús og heimleiðin fór í að skera sundur þessa fínu togvíra svo hægt væri að gera veiðarfærið klárt.
 Mér datt þetta svona í hug. 

17.04.2011 00:45

Marta SU 89Er nýjasta fiskiskip Söðfirðinga og er í eigu Péturs Viðarssonar og Elís Helgasonar en bát þennan keyptu þeir og gerðu upp og afraksturinn er einnn fallegasti báturinn þarna á hafnarsvæðinu að mínu mati.

03.04.2011 14:43

Vorið er komið.Þessi er tekin í gærkvöldi er ég var nýkominn úr garðinum þar sem ég reif upp eitt stykki limgerði og veðrið var svo ægifagurt að það kallaði á myndatöku.

Og eftir matinn var aftur farið út á svalirnar og dúndrað einni út í næturhúmið.emoticon

27.03.2011 22:52

Hverjir eru þetta?Hér kemur ein góð til að velta vöngum yfir og er ég þegar farinn að halla undir flatt fyrir þó nokkru eða síðan ég rakst á þennan dýrgrip. Ég veit að vísu um tvo bræður þarna í hópnum en um hina hef ég ekki minnstu hugmynd.Það væri gaman að fá einhver viðbrögð hjá þeim sem vita eitthvað meira um þessa stráka en ég veit..emoticon

01.03.2011 00:55

Þegar lífið var saltfiskur.Ekki er gott að segja hvað þessum öðlingum fór á milli þegar þetta augnablik var fest á filmu en þetta eru að sjálfsögðu,Sighvatur á Borg og Stefán frá Skriðu sem ræða þarna málin.
Við erum stödd inni á kaffistofunni í salthúsinu í kringum 1980 þegar fiskurinn flæddi á land og rétt hafðist undan að vinna hann í fiskvinnsluhúsum HSS....

24.02.2011 00:30

Loðnuveiðar.Þessi mynd er tekin einhvern tíma eftir 1970 og sýnir loðnudælingu um borð í Heimi SU. Magnús Þorvaldsson tók þessa en hann var skipstjóri á skipi þessu. Það liggur við að maður finni lyktina við að skoða svona mynd. 

20.02.2011 01:04

Heimir SU 100Þetta er án efa ein besta mynd sem ég hef séð af Heimi SU í fullri drift en þessi mynd er tekin við Hjaltlandseyjar árið 1969 þegar verið var á síldveiðum í Norðursjó og saltað í tunnur eins og sjá má af skýlinu sem er yfir hausaranum og þar inni stóðu menn kófsveittir og mokuðu gulli hafsins í vélina sem afhausaði fórnarlömbin miskunnarlaust...

07.02.2011 17:15

Fossgerði.Við hjónin skruppum suður í Berufjörð í gærdag til að njóta þeirrar fegurðar sem fjörðurinn býður upp á og að sjálfsögðu fékk ættaróðalið mitt nokkur myndskot. Fleiri myndir í albúmum merkt, "Berufjörður" og "Náttúran".

19.01.2011 00:08

Siglt með ströndum.Þessi er tekin af Arnari Snæ um borð í Mánaberginu og sýnir Hvanndalabjarg sem rís úr sæ er komið er inn til Ólafsfjarðar að ég best veit.Það er oft skemmtilegt að sigla nálægt landi þegar svona náttúrufegurð er í boði..

04.01.2011 15:16

Gleðilegt nýtt ár!Ég læt þetta verða fyrstu mynd ársins enda ekki amalegur staður til að rölta um og njóta. Því miður fyrir mig hefur krían líka mikinn áhuga á þessum fallega stað og er ekkert við því að segja nema ríghalda í þann hugsunarhátt að allir séu vinir í skóginum.
Fyrir stuttu sagði Auður frænka mín mér frá því að þegar hún var lítil stúlka í Laufási,hefði það verið hápunktur sumarsins er fjölskyldan tók sig til og sigldi á trillunni "Hlýra" sem Sólmundur átti, inn allan ósinn eins langt og Hlýrinn flaut. Var stigið á land og legið í berjamó þangað til flæddi að á ný og hægt var að sigla út ósinn með fleytifullar berjafötur,galtóma kaffibrúsa og bitabox. Maður ætti að gera meira af því að skrifa niður frásagnir hjá eldra fólki sem er hafsjór af minningum eins og fyrrnefnd frænka mín.
clockhere